
Klappir og Súrefni hafa undirritað samstarfssamning sem mun efla fyrirtæki og stofnanir í að þróa, fylgjast með og votta sjálfbær verkefni. Með þessu samstarfi munu viðskiptavinir Klappa fá greiðari aðgang að vottunarferlum fyrir verkefni sem draga úr umhverfisáhrifum og styðja við hringrásarhagkerfið.
Hugbúnaðarlausnir Klappa gera fyrirtækjum kleift að uppfylla kröfur um sjálfbærniupplýsingar með skilvirkum og einföldum hætti. Súrefni vinnur með fyrirtækjum og sveitarfélögum að þróun og vottun sjálfbærra verkefna sem skapa kolefniseiningar eða aðrar vottanir fyrir mælanlegar umhverfisframfarir.
„Það skiptir sköpum að efla innviði fyrir sjálfbær verkefni á Íslandi,“ segir Íris Karlsdóttir, framkvæmdastjóri samstarfs hjá Klöppum. „Með samstarfinu við Súrefni geta viðskiptavinir okkar fengið aðgang að vottaðri aðferðafræði og verkefnaþróun sem styður við kolefnishlutleysi og umhverfisábyrgð. Við trúum því að þessi nálgun styrki íslenskt atvinnulíf og auki trúverðugleika sjálfbærnivegferðar fyrirtækja og sveitarfélaga.“
Súrefni hefur á undanförnum árum unnið að fjölbreyttum verkefnum, þar á meðal með Ísorku, þar sem áhrif uppsetningar og reksturs hleðslustöðva hafa verið vottuð samkvæmt alþjóðlegum stöðlum. Verkefnið stuðlar að orkuskiptum með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og sýnir hvernig íslenskt atvinnulíf getur tekið skref í átt að sjálfbærari framtíð með vottaðri aðferðafræði og vísindalegum gögnum.
Fyrirtæki og stofnanir geta þá nýtt virkar, vottaðar kolefniseiningar Ísorku til eigin mótvægisaðgerða og dregið úr eigin kolefnisspori.
Annað dæmi um áhrifarík sjálfbærniverkefni er samstarf Súrefnis við Pure North, sem vinnur að sjálfbærri plastendurvinnslu á Íslandi. Með því að hreinsa og endurvinna plast á staðnum í stað þess að flytja það erlendis, dregur verkefnið verulega úr kolefnisspori plastendurvinnslu á Íslandi. Með vottun verkefnisins er hægt að tryggja gagnsæi í plastendurvinnsluferlinu og sýna fram á raunveruleg umhverfisáhrif þess.
„Sjálfbær verkefni þurfa skýra aðferðafræði, gegnsæi og vottun til að skila raunverulegum áhrifum. Við hjá Súrefni erum stolt af því að vinna með Klöppum til að styðja fyrirtæki í að þróa og sannreyna áhrif sjálfbærniverkefna. Hugbúnaður Klappa veitir notendum rauntíma innsýn í umhverfisáhrif sín og við hjálpum þeim að taka næstu skref í átt að ábyrgari og mælanlegri sjálfbærnivinnu,“ segir Aríel Jóhann Árnason, stofnandi Súrefnis.
Með þessu samstarfi verður einfaldara fyrir fyrirtæki og stofnanir að koma sjálfbærum verkefnum í framkvæmd, tryggja vottun og sýna fram á áþreifanleg áhrif á umhverfið.